Vatnsárið 2016/2017
Vel yfir meðallagi
Vatnsárið hófst á góðum októbermánuði sem tryggði að miðlunarstaðan var mjög góð í lok mánaðarins. Innrennsli framan af vetri var umfram meðallag á öllum vatnasvæðum og það var ekki fyrr en í mars og apríl að komu mánuðir sem voru undir miðgildi rennslisviðmiðs.
Um mánaðamótin apríl/maí voraði og maímánuður var hlýr og innrennsli gott. Júní var kaldur og fram í júlí en þá hlýnaði og jökulbráð hófst.
Ágústmánuður var frekar slakur, sem ekki kom að sök því öll miðlunarlón voru orðin full um miðjan mánuðinn, og innrennsli í september var vel umfram meðaltal.
Í heildina telst vatnsárið vel yfir meðallagi.
Vöktun vatnshæðar og fleiri umhverfisþátta á vef Landsvirkjunar
Myndin sýnir vatnsstöðu á miðlunarsvæðum Landsvirkjunar eftir mánuðum. Hægt er að smella á mánuðina hér að ofan og fá upplýsingar um stöðuna í vatnsbúskapnum.
Jarðhitaforðinn
Markmið fyrirtækisins er að nýta jarðhitaauðlindina á sjálfbæran og hagkvæman hátt. Landsvirkjun starfrækir þrjár jarðvarmastöðvar; Kröflustöð, Bjarnarflagsstöð og Þeistareykjastöð. Stundaðar eru umfangsmiklar rannsóknir á nýtingu jarðhita á þessum svæðum, bæði í tengslum við núverandi rekstur og vegna mögulegrar framtíðarnýtingar á öðrum svæðum.
Við nýtingu jarðhitaauðlindarinnar er jarðhitavökvi sem samanstendur af gufu, vatni og gasi tekinn upp úr jarðhitageymi á um 2.000 metra dýpi. Orkan er unnin úr gufunni. Stærstum hluta vatnsins er dælt aftur niður í jarðhitageyminn (djúplosun) eða því veitt í yfirborðsvatn meðan gasið fer út í andrúmsloftið.
Á árinu 2017 voru 6.415 þúsund tonn af gufu notuð til að vinna 565 GWst af raforku á Mývatnssvæðinu (Kröflu, Bjarnarflagi og Þeistareykjum). Magn gufu jókst nokkuð á árinu og sömuleiðis raforkuvinnsla, þar sem rekstur hófst á Þeistareykjum.
Þá féllu til við vinnslu 15.792 þúsund tonn af þétti- og skiljuvatni og hefur magn vatns í jarðhitavökvanum aukist nokkuð frá fyrra ári með tilkomu nýrrar virkjunar á Þeistareykjum. 6.841 þúsund tonnum af skilju- og þéttivatni var veitt aftur niður í jarðhitageyminn.
Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að tryggja örugga og sjálfbæra jarðvarmavinnslu og draga úr umhverfisáhrifum sem henni fylgja.
Auðlindir
Við vinnum orku úr endurnýjanlegum orkulindum. Endurnýjanleg orka er unnin frá orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þótt af henni sé tekið og helst þannig í jafnvægi frá náttúrunnar hendi.