Section
Segment

Árið 2017 var Landsvirkjun hagsælt. Reksturinn gekk afar vel. Orkuvinnsla hefur aldrei verið meiri og framkvæmdir við tvær nýjar virkjanir gengu í samræmi við áætlanir en önnur þeirra var gangsett undir lok árs. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði var meiri en nokkru sinni fyrr í sögu fyrirtækisins. Það styttist því óðum í að Landsvirkjun geti farið að skila auknum arði til eiganda síns.

Það er ánægjulegt að fjárhagsleg hlið starfseminnar gengur vel. Fleira skiptir þó máli í rekstri orkufyrirtækis eins og Landsvirkjunar sem er í eigu íslensku þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að huga vel að öllum þremur hliðum sjálfbærrar þróunar; hinni efnahagslegu, hinni samfélagslegu og hinni umhverfislegu. Þetta endurspeglast í efnistökum þessarar ársskýrslu.

Í þessu ljósi ákvað Landsvirkjun á árinu að leggja áherslu á þrjú af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun; heimsmarkmið 13 um verndun jarðarinnar (sem lýtur að loftslagsmálum), heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku og heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna.

Engum blöðum er að fletta um framlag Landsvirkjunar til baráttunnar við loftslagsbreytingar. Rúmlega 80% af orkuvinnslu heimsins byggir enn á bruna jarðefnaeldsneytis og því er óhjákvæmilegt að auka sjálfbæra orkuvinnslu með endurnýjanlegum orkugjöfum, líkt og þá sem Landsvirkjun stundar, og draga úr orkunotkun almennt.

Blöndustöð hlaut á árinu Blue Planet sjálfbærniverðlaunin og Fljótsdalsstöð fékk framúrskarandi einkunn fyrir sjálfbærni samkvæmt alþjóðlegum matslykli.

Mikil áhersla er lögð á jafnréttismál hjá Landsvirkjun. Á árinu hlaut fyrirtækið gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC í þriðja sinn, hlutfall kvenstjórnenda fór yfir 30% og ráðist var í gerð aðgerðaráætlunar á grundvelli Jafnréttisvísis Capacent.

Landsvirkjun tekur ábyrgð sína alvarlega.

Section
Segment

Rekstur Landsvirkjunar gekk vel á árinu 2017. Tekjur voru meiri en nokkru sinni fyrr og slegin voru met í orkusölu og -vinnslu. Selt magn nam 14,3 teravattstundum sem var yfir 5% aukning frá fyrra ári. Slegin voru vinnslumet í fimm aflstöðvum á árinu; Fljótsdalsstöð, Sigöldustöð, Búðarhálsstöð, Sultartangastöð og Steingrímsstöð.

Ytri aðstæður voru okkur einnig hagstæðar. Álverð, sem enn ræður töluverðu um tekjur fyrirtækisins, hækkaði um 23% á milli ára. Rekstur flestra stærstu viðskiptavina okkar gekk vel á árinu og eftirspurn eftir raforku frá Landsvirkjun var áfram mikil.

Öll þessi atriði leiddu til þess að hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði varð meiri en nokkru sinni fyrr. Fjárhagur Landsvirkjunar styrkist með hverju árinu sem líður og því styttist óðum í að við getum farið að auka arðgreiðslur til eiganda fyrirtækisins, íslensku þjóðarinnar.

Þetta sterka sjóðstreymi hefur staðið undir miklum fjárfestingum undanfarin misseri en við höfum verið með tvær virkjanir í byggingu í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins, auk þess sem Búðarhálsstöð var gangsett árið 2014. Fyrsti áfangi jarðvarmavirkjunar á Þeistareykjum var gangsettur í nóvembermánuði en annar áfangi verður gangsettur á vormánuðum 2018. Framkvæmdum við stækkun Búrfellsvirkjunar fer nú senn að ljúka en stefnt er að gangsetningu um mitt ár 2018. Samtals koma 1,6 teravattstundir frá þessum þremur nýju aflstöðvum sem nemur um 12% aukningu á vinnslugetu.

Þessar framkvæmdir, sem leggja grunn að styrkari og öruggari tekjustofnum fyrir fyrirtækið, hafa tímabundið hægt á lækkun skulda. Á árinu 2018 lýkur þessu mikla framkvæmdatímabili og þá eru horfur á því að fyrirtækið verði enn stöndugra en áður og betur í stakk búið að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Landsvirkjun er þátttakandi í UN Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna, sem lýtur að hnattrænum viðmiðum um samfélagslega ábyrgð, og er gerð grein fyrir framvindu í þeim málaflokkum í ársskýrslunni.