Íslendingar vinna nærri 100% allrar raforku með endurnýjanlegum orkugjöfum. Landsvirkjun vinnur þrjá fjórðu hluta þessarar orku.
Landsvirkjun starfrækir fjórtán vatnsaflsstöðvar, þrjár jarðvarmastöðvar og tvær vindmyllur á fimm starfssvæðum víðs vegar um landið. Þeistareykjastöð er þriðja jarðvarmastöð Landsvirkjunar og var fyrri vél hennar gangsett þann 17. nóvember og tekin í rekstur að loknum prófunum mánuði síðar.
Við rekstur aflstöðva er lögð áhersla á heildræna sýn þar sem ráðdeild, áreiðanleiki og sambýli starfseminnar við umhverfi og samfélag eru höfð að leiðarljósi.
Nýtt met í vinnslu raforku
Vinnsla raforku gekk vel á árinu og fór raforkuvinnslan í fyrsta sinn yfir 14 TWst.
Slegin voru vinnslumet á árinu í Fljótsdalsstöð, Sigöldustöð, Búðarhálsstöð, Sultartangastöð og Steingrímsstöð.
Vatnsafl: 13.459 GWst
Raforkuvinnsla í vatnsaflsstöðvum Landsvirkjunar árið 2017 var um 13.459 GWst.
Landsvirkjun starfrækir fjórtán vatnsaflsstöðvar víðs vegar um landið á fjórum starfssvæðum.
Á Þjórsársvæði eru sex aflstöðvar með samtals 18 aflvélar og fjölda veituvirkja sem spanna svæðið frá Hofsjökli niður að Búrfellsstöð.
Á Sogssvæði eru þrjár aflstöðvar með samtals 8 aflvélar og veituvirki við Þingvallavatn og Úlfljótsvatn.
Laxárstöðvar heyra undir Blöndusvæði og eru aflstöðvar á því starfssvæði þrjár með samtals 5 aflvélar og tilheyrandi veituvirki. Við Blöndustöð spanna veituvirki 25 kílómetra langt svæði frá Reftjarnarbungu niður að Gilsá.
Fjórða starfssvæðið er Fljótsdalsstöð, stærsta vatnsaflsstöð landsins, með 6 aflvélar og umfangsmikil veituvirki, meðal annars jarðgöng sem eru samanlagt um 70 km löng. Í Fljótsdalsstöð voru unnar 5.000 GWst á árinu, eða um 37% af heildarorkuvinnslu Landsvirkjunar.
Ítarlegri upplýsingar um vatnsbúskapinn má finna í kaflanum Auðlindir
Jarðvarmi: 565 GWst
Raforkuvinnsla í jarðgufustöðvum Landsvirkjunar árið 2017 var um 565 GWst, miðað við 496 GWst árið 2016.
Tilraunarekstur á Þeistareykjum hófst í október og skýrir hann að mestu leyti aukninguna.
Landsvirkjun hefur að leiðarljósi að nýta jarðhita á sjálfbæran og ábyrgan hátt. Hluti þeirrar stefnu er að gæta þess að vatnsforða jarðhitakerfanna sé viðhaldið með góðu jafnvægi á milli nýtingar og innrennslis í kerfið. Sá hluti vökvans sem ekki er nýttur til raforkuvinnslu er skilinn frá og dælt aftur niður í jarðhitageyminn.
Jarðgufustöðvar Landsvirkjunar í árslok 2017 voru þrjár, í Kröflu, á Þeistareykjum og Bjarnarflagi, með samtals fjórum aflvélum.
Vindafl: 6 GWst
Landsvirkjun rekur tvær vindmyllur í rannsóknarskyni á svæði sem kallast Hafið og er norðan við Búrfell. Hvor vindmylla um sig hefur 0,9 MW uppsett afl. Rekstur þeirra gekk vel á árinu og lítið var um truflanir. Raforkuvinnsla þeirra var 5,6 GWst á árinu.
Raforkuafhending Landsvirkjunar inn á flutningskerfi Landsnets nam 13.898 GWst árið 2017 sem er 4,6% meira en árið 2016.
Rekstur aflstöðva
Rekstur stöðva gekk vel á árinu 2017. Fyrirvaralausar truflanir í aflstöðvum fyrirtækisins voru 82, jafn margar og á árinu 2016. Landsvirkjun hefur sett sér það markmið að allar vélar í aflstöðvum fyrirtækisins skuli vera tiltækar 99% af árinu að meðtöldum skipulögðum viðhaldstímabilum. Þetta markmið náðist á árinu. Vélar voru tiltækar 99,8% tímans á árinu og er það sama tiltæki og árið áður.
Landsvirkjun starfrækir samþætt, vottað gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi sem byggist á ISO 9001, ISO 14001, OHSAS 18001 og innra rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi (RÖSK) sem uppfyllir kröfur Mannvirkjastofnunar um rafmagnsöryggisstjórnun. Þýska vottunarstofan TÜV SÜD hefur vottað raforkuvinnslu Landsvirkjunar sem græna raforkuvinnslu og auk þess er öryggisstjórnkerfi upplýsingasviðs Landsvirkjunar vottað samkvæmt ISO 27001.
Endurbætur á orkumannvirkjum í rekstri
Strax í upphafi er mikilvægt að huga vel að gæðum við hönnun og byggingu nýrra virkjana. Með öðrum orðum „það skal vanda, sem lengi á að standa“. Á rekstrartíma má hvergi slá slöku við; í vöktun, ástandsmati, viðhaldi og endurbótum til að tryggja hámarksendingu.
80 ára rekstur Ljósafossstöðvar
Á árinu varð Ljósafossstöð við Sog 80 ára gömul og slær hvergi slöku við. Nýtingarhlutfall stöðvarinnar á afmælisárinu var um 97,5% sem þýðir að vélar stöðvarinnar voru í gangi 357 daga á árinu. Stöðin var úti vegna skoðana og viðhalds í sjö daga og úti vegna truflana aðeins einn dag.
29.000 eignir skráðar í viðhaldskerfi
Landsvirkjun hefur ætið sett sér að vera í fremstu röð orkufyrirtækja varðandi skipulag og framkvæmd viðhalds og endurnýjunar.
Í gegnum tíðina hefur verið komið upp margvíslegum stuðningskerfum til að gera starfsemina bæði árangursríkari og skilvirkari. Má í því sambandi nefna að fyrsta tölvustýrða viðhaldskerfið var tekið upp fyrir um 30 árum síðan, aðeins nokkrum árum eftir að PC-tölvur komu fyrst á markað.
Í viðhaldskerfinu eru 17 aflstöðvar, með 43 vélasamstæðum sem skiptast í ótal kerfi og tæki. Alls eru 29.000 eignir skráðar í kerfinu og árlega gefnar út um 5.000 verkbeiðnir fyrir skoðanir og viðhald. Auk þess eru unnin um 50 endurbótaverkefni á ári hverju.
Kostnaður við gæslu, eftirlit, skoðanir, viðhald og endurbætur nemur um 5,5 milljörðum króna á ári.
Árið 2013 var tekið upp sérstakt verklag á sviði eignastýringar, sem byggir á ISO 55000 staðlinum, og innleitt sérstakt hugbúnaðarkerfi í tengslum við það. Verkefnum við endurbætur er forgangsraðað eftir ávinningi og byggir matið á sérstöku virðislíkani. Virðislíkanið byggir á þáttum sem valdið geta fyrirtækinu tekjutapi eða tjóni, sem og jákvæðum þáttum sem skapa auknar tekjur eða ávinning af öðrum toga.
Líkan fyrir mat á ávinningi endurbótaverkefna

Alþjóðleg verðlaun fyrir sjálfbæra nýtingu
Blöndustöð hlaut á árinu Blue Planet verðlaunin sem Alþjóða vatnsaflssamtökin (International Hydropower Association, IHA) veita verkefnum sem skara fram úr í sjálfbærri nýtingu vatnsafls í heiminum. Verðlaunin eru veitt á grundvelli alþjóðlegs matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls en úttekt á grundvelli hans var gerð á Blöndustöð árið 2013. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Blöndustöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og að á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Blöndustöð þær bestu sem fyrirfinnast.