Segment

Landsvirkjun setur árlega markmið í sex áhersluflokkum samfélagslegrar ábyrgðar. Hér að neðan má sjá markmið ársins 2017 ásamt aðgerðum og árangri á árinu.

Section
Segment

Markmið 2017

Árlega er gerð framkvæmdaáætlun sem unnið er að yfir árið og inniheldur eitt eða fleiri markmið fyrir hvern meginflokk. Leitast fyrirtækið þannig við að auka jákvæð áhrif þess á umhverfi og samfélag og draga úr hinum neikvæðu. Markmiðin eru sett fram á vefnum í upphafi árs og framvinda þeirra auðkennd eftir því sem árið skríður fram. Þegar nýtt ár hefst eru þau metin, endurskoðuð og ný markmið sett.

Sum af markmiðunum, og verkefnunum í tengslum við þau, eru studd af stefnum eða reglum sem Landsvirkjun hefur talið nauðsynlegt að setja. Er það meðal annars gert til að hagsmunaaðilar geti betur séð og skilið hvernig fyrirtækið starfar, og hvaða væntingar þeir geta gert til þess, en einnig til að tryggja sameiginlegan skilning á ákveðnum viðfangsefnum, þvert yfir fyrirtækið.

Segment
Mannréttindastefna

Aukin krafa um ófjárhagslega upplýsingagjöf, þar sem sérstaklega er kveðið á um umfjöllun um stefnu í mannréttindamálum, er gerð til fyrirtækja í nýjum lögum um ársreikninga. Landsvirkjun mun á árinu 2017 endurskoða stefnu sína í jafnréttismálum með tilliti til mannréttinda eða setja sér stefnu í mannréttindamálum.

Staða í lok árs 2017
Undirbúningsvinna að gerð stefnu Landsvirkjunar varðandi mannréttindi stóð yfir á árinu 2017 en er ekki lokið. Mannréttindastefna hefur því ekki verið gefin út en stefnt er að útgáfu hennar á árinu 2018.

Græn skref

Græn skref snúast um að efla vistvænan rekstur með kerfisbundnum hætti. Aðgerðirnar miða einkum að venjulegri skrifstofustarfsemi og hafa jákvæð áhrif á umhverfið, bæta starfsumhverfi starfsmanna og draga úr rekstrarkostnaði.

Staða í lok árs 2017
Á árinu var lokið við að innleiða Græn skref tvö og þrjú á Akureyri og í Reykjavík. Einnig var tekið upp það verklag sem fellur undir skref fjögur en þær aðgerðir hafa enn ekki verið teknar út af Umhverfstofnun. Sú breyting var gerð á árinu 2017 að aðgerðir grænna skrefa eru nú hluti af umhverfisúttektum á öllum starfsstöðvum Landsvirkjunar.

Kortlagning virðiskeðju

Siðareglur, sem birgjar og þjónustuaðilar undirgangast í samstarfi sínu við Landsvirkjun, eru hluti af daglegri starfsemi fyrirtækisins. Á árinu 2017 verður leitast við skapa aukna yfirsýn yfir þau samfélagslegu áhrif sem birgjar hafa. Er þá meðal annars horft til loftslagsmála og bruna á jarðefnaeldsneyti.

Staða í lok árs 2017
Í samstarfi við ráðgjafa voru gerðar tillögur að kröfum sem Landsvirkjun gæti sett fram í samningum við verktaka með það að markmiði að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis á verktíma. Það er eitt af stefnumiðum fyrirtækisins að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis í starfseminni og vill það einnig stuðla að því að aðrir geti gert slíkt hið sama. Skoðað var hvernig hægt væri að lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis á verkstað og þá með sérstakri áherslu á vinnuvélar. 

Upplýsingar til CDP

Á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember 2015 skrifaði Landsvirkjun undir yfirlýsinguna „Caring for Climate“. Með þátttöku sinni í verkefninu skuldbatt Landsvirkjun sig til að birta og upplýsa um framvindu varðandi þau markmið sem fyrirtækið setti sér í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Á árinu 2016 skilaði Landsvirkjun í fyrsta skipti inn skýrslu um kolefnislosun sína til félagasamtakanna The Carbon Disclosure Project (CDP).

Staða í lok árs 2017
Landsvirkjun skilaði inn skýrslu um kolefnislosun sína og aðgerðir í loftslagsmálum til CDP í annað sinn á árinu 2017.

Samkvæmt endurgjöf CDP er Landsvirkjun komin vel af stað í vinnu sinni í loftslagsmálum („awareness“). Í endurgjöfinni nefnir CDP að eftirfarandi aðgerðir gætu styrkt vinnu og bætt árangur Landsvirkjunar í loftslagsmálum:

  • Taka mið af leiðbeiningum SBTI (Science Based Targets initiative) við setningu markmiða um minni kolefnislosun
  • Innleiðing innra verðs fyrir kolefni
  • Styrkja upplýsingagjöf með hliðsjón að leiðbeiningum samtakanna CDSB (Climate Disclosure Standards Board).

Landsvirkjun mun hafa endurgjöf CDP til hliðsjónar við áframhaldandi vinnu í loftslagsmálum. 

Endurskoðuð stefna um orkuskipti í samgöngum

Á árinu 2012 samþykkti Landsvirkjun stefnu um orkuskipti í samgöngum og á árinu 2013 var samþykkt samgöngustefna. Báðar þessar stefnur lýsa yfir stuðningi við að draga úr áhrifum samgangna á umhverfi og andrúmsloft, með því að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og með orkuskiptum í samgöngum.

Stuðningur við orkuskipti hefur aukist í íslensku samfélagi og umræða aukist. Því er tímabært að endurskoða stefnurnar og gera tillögu sem miðar að þeim tækifærum sem nú hafa skapast. Landsvirkjun mun áfram leitast við að stuðla að orkuskiptum í samgöngum, bæði í eigin starfsemi og í samstarfsverkefnum.

Staða í lok árs 2017

Gerð var tillaga að hreinorkustefnu Landsvirkjunar, sem sameinar tvær fyrri stefnur fyrirtækisins varðandi orkuskipti í samgöngum og samgöngustefnu, og var hún samþykkt í framkvæmdastjórn Landsvirkjunar. Eitt af verkefnunum sem ráðist var í á árinu 2017 var fjölgun rafbíla á Þjórsársvæðinu yfir sumartímann, samhliða ráðningu sumarstarfsfólks, í stað leigu á díselbílum eins og tíðkast hefur. Reynslan af þessari nýbreytni leiddi eftirfarandi í ljós:

  • Losun koltvísýrings dróst saman um 7,9 tonn CO2 miðað við sama tíma árið 2016
  • 3.000 lítrar af eldsneyti spöruðust á árinu 2017
  • Aukin notkun rafbíla í starfsemi Landsvirkjunar á landsbyggðinni er raunhæfur kostur
Skógrækt í Skálmholtshrauni

Skálmholtshraun í Flóa er í eigu Landsvirkjunar og um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi að skógrækt á jörðinni. Er þar um breytta landnotkun að ræða og breyta þarf aðalskipulagi svo að af verkefninu geti orðið. Í breytingunni felst að land jarðarinnar verður flokkað með tilliti til landbúnaðarnota. Ljóst er að til staðar er umtalsvert land sem hentar til skógræktar.

Staða í lok árs 2017
Ekki hefur verið gengið frá endurskoðuðu aðalskipulagi fyrir Flóahrepp en meginhluti jarðarinnar Skálmholtshraun er frá fyrri tíð skilgreindur sem landbúnaðarland. Á árinu 2017 var unnið að undirbúningi skógræktar á jörðinni. Leitað verður eftir samstarfsaðila á svæðinu um framkvæmd skógræktarinnar og er stefnt að því að hún hefjist á árinu 2018.

Arður greiddur til eiganda

Hlutverk Landsvirkjunar er að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Ein af þeim leiðum til að standa undir þessu hlutverki er að greiða arð af starfsemi fyrirtækisins. Árlega greiðir Landsvirkjun arð til eiganda síns sem er íslenska ríkið. Upphæð arðgreiðslunnar er breytileg milli ára og er ákveðin af stjórn á aðalfundi Landsvirkjunar.

Staða í lok árs 2017
Á aðalfundi Landsvirkjunar í apríl var samþykkt tillaga stjórnar um arðgreiðslu til eigenda að fjárhæð 1,5 milljarðar króna fyrir árið 2016.

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi

Sjálfbærniverkefnið á Norðausturlandi er samstarfsverkefni við hagsmunaaðila á áhrifasvæði framkvæmda við Þeistareykjavirkjun og iðnaðaruppbyggingu að Bakka. Þekkingarnet Þingeyinga fer með verkefnastjórn og heldur utan um verkefnið. Í breiðu samráði voru mótaðir vísar, með tilliti til sjálfbærni, til að fylgjast með þróun á svæðinu.

Vinna við gerð vefsíðu og uppsetningu mun fara fram árinu 2017. Í árslok er gert ráð fyrir að vinnu við öflun gagna vegna ársins 2015 og 2016 verði lokið og gögnin komin í skýran búning til birtingar á vefsíðu verkefnisins.

Staða í lok árs 2017
Undirbúningur að vefsíðu verkefnisins hófst í febrúar og tillaga að vef var kynnt stýrihópi á fundi í október. Stýrihópur lagði til að lénið www.gaumur.is yrði notað fyrir verkefnið og þá með vísan til þess að gefa einhverju gaum eða gaumgæfa. Samhliða undirbúningi vefsins var gagnasöfnun haldið áfram og úrvinnsla gagna. Upphaflega var gert ráð fyrir að umfang gagnasöfnunarinnar næði yfir árin 2015 og 2016 en úr varð að gögn verða sótt aftur til ársins 2011, þar sem því verður við komið án aukins tilkostnaðar.

Sjá nánari umfjöllun í ársskýrslu

Samtal og samráð

Á árinu 2015 hófst umfangsmikil vinna innan Landsvirkjunar sem miðaði að því að bæta samskipti við hagsmunaaðila, auka gagnkvæman skilning þar á milli og samstöðu um mikilvæga þætti í verkefnum og starfsemi fyrirtækisins. Á árinu 2017 verður þessari vinnu haldið áfram. Annars vegar verða settir á fót þverfaglegir samráðshópar innan fyrirtækisins og hins vegar verður enn frekar leitast við að efla samtal og samráð við hagsmunaaðila með ýmsum hætti.

Staða í lok árs 2017
Í upphafi árs voru skilgreindir níu samráðshópar innan Landsvirkjunar þar sem hver hópur fékk eitt áhersluverkefni til að vinna að. Viðfangsefnin voru af ólíkum toga en sem dæmi má nefna verndun miðhálendisins, loftslagsmál og orkuþörf samfélagsins til framtíðar. Fólst vinna hópanna meðal annars í því að taka upp samtal og samráð við hagsmunaaðila tengda efninu. Því var til að mynda talað við atvinnuþróunarfélög, sveitarfélög og viðskiptavini.

Hlutfall kvenkyns stjórnenda hærra en 30%

Stefna Landsvirkjunar er að gæta fyllsta jafnréttis milli kvenna og karla og að starfsmenn njóti jafnra tækifæra óháð kyni. Fyrirtækið hefur sett sér jafnréttisstefnu og starfandi er jafnréttisnefnd. Á tveggja ára fresti er gerð framkvæmdaáætlun jafnréttismála með skilgreindum markmiðum. 

Staða í lok árs 2017
Markmið Landsvirkjunar fyrir 2017 um að hlutfall kvenkyns stjórnenda sé hærra en 30% náðist á árinu.

Úttekt á aðgengi

Stjórnendur Landsvirkjunar eru meðvitaðir um að horfa þarf til þess að auka fjölbreytileika í röðum starfsmanna. Eitt af markmiðum ársins 2017 á sviði mannauðsmála er að gerð verði úttekt á aðgengi fyrir fatlaða og mat á starfsaðstöðunni í víðu samhengi á aðalskrifstofum fyrirtækisins að Háaleitisbraut 68.

Staða í lok árs 2017
Á árinu 2017 var gerð úttekt á öllum starfsstöðum Landsvirkjunar með tilliti til aðgengis kynjanna en ekki varð af slíkri úttekt með tilliti til aðgengis fatlaðra á Háaleitisbraut 68. Stefnt er að því að ljúka slíkri úttekt á árinu 2018.

Árleg slysatíðni sé 0

Landsvirkjun rekur núllslysastefnu og er eitt af markmiðum fyrirtækisins 0 fjarveruslys eigin starfsmanna.

Staða í lok árs 2017
Á árinu 2017 voru engin fjarveruslys hjá starfsmönnum Landsvirkjunar.

Miðlun þekkingar um loftslagsmál

Landsvirkjun vill stuðla að aukinni vitund almennings um áhrif loftslagsbreytinga og ábyrgð Íslands í hnattrænu samhengi. Það verður gert með miðlun af ýmsu tagi, svo sem opnum fundum, útgefnu efni, samtali og hvatningu til málefnalegrar umræðu um loftslagsmál.

Staða í lok árs 2017
Landsvirkjun stóð fyrir opnum fundi í marsmánuði þar sem kynntar voru áherslur fyrirtækisins á Heimsmarkmið Sameinuðu Þjóðanna en Landsvirkjun leggur áherslu á Heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjannar, Heimsmarkmið 13 um verndun jarðar (loftslagsmál), og Heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku. Þá tók forstjóri fyrirtækisins þátt í umræðu um loftslagsmál á vettvangi Verkfræðingafélags Íslands og á þingi Samorku á vormánuðum. Á Arctic Circle Assembly ráðstefnunni, sem haldin var í Hörpu dagana 13.–15. október, stóð Landsvirkjun svo fyrir málstofu sem bar titilinn „Adapting Power Production to a Changing Climate“.

Haustfundur Landsvirkjunar, sem var haldinn 2. nóvember, var fjölsóttur en umfjöllunarefnið var verðmæti endurnýjanlegrar orku. Framsögumenn gerðu grein fyrir því hver áhrif loftslagsbreytinga hafa verið á orkuvinnslu og nýtingu íslenska kerfisins, hvernig endurnýjanleg orka er orðin eftirsóttari um allan heim og hvernig nýta má hana á ábyrgan og sjálfbæran hátt.

OrkuRannsóknir kynntar almenningi (ORKA)

Unnið verður að gerð námsefnis um orkumál, til að kynna orkurannsóknir fyrir almenningi og fjalla um sjálfbæra nýtingu orkuauðlinda, með áherslu á nýsköpun og tækni og fjölbreytni starfa í orkugeiranum. Verkefnið er samstarfsverkefni Orkurannsóknasjóðs Landsvirkjunar og Náttúruvísinda á nýrri öld við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Lögð verður áhersla á læsi, sköpun og sjálfbærni. Viðfangsefnin tengjast flest hugmyndum um sjálfbærni og verða öllum aðgengileg, nemendum sem og almenningi, á vef NaNO án endurgjalds.

Staða í lok árs 2017
Gagnabankinn Náttúruvísindi á nýrri öld, NaNO, er settur upp af Menntavísindasviði Háskóla Íslands en verkefnabankinn er fyrir starfandi kennara í grunn- og framhaldsskólum sem koma að náttúrufræði- og/eða raunvísindakennslu. Efnið í gagnabankanum er samið af starfandi kennurum fyrir starfandi kennara og er námsefnið  með öllu frjálst til afnota. Sótt var um styrk úr Orkurannsóknarsjóði til að skrifa námsefni um orkumál og kynna orkurannsóknir fyrir almenningi. Vegna breyttra aðstæðna hjá aðstandendum verkefnisins var ekki unnt að hefjast handa á árinu en það er ráðgert á árinu 2018.