Segment

Landsvirkjun leggur áherslu á þrjú af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Segment

Í byrjun árs 2017 var ákveðið að Landsvirkjun myndi í starfsemi sinni leggja áherslu á þrjú af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun; heimsmarkmið 13 um verndun jarðarinnar (loftslagsmál), heimsmarkmið 7 um sjálfbæra orku og heimsmarkmið 5 um jafnrétti kynjanna.

Í lok mars hélt Landsvirkjun opinn morgunverðarfund á Hótel Natura um samfélagsábyrgð og heimsmarkmiðin. Á fundinum fjallaði Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar um heimsmarkmið 13 um loftslagsmál og áherslur fyrirtækisins í þeim málaflokki. Ragnhildur Arnljótsdóttir, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, fjallaði um heimsmarkmiðin í heild sinni og Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkuseturs, fjallaði um heimsmarkmið 7, um sjálfbæra orku.

Segment
Segment

Landsvirkjun leggur ríka áherslu á að vinna orku með sjálfbærum hætti í sátt við umhverfi og samfélag. Stuðningur við heimsmarkmiðin fellur vel að áherslum Landsvirkjunar á sviði samfélagsábyrgðar og stuðningi fyrirtækisins við UN Global Compact.

Section
Segment

Jafnrétti kynjanna

Heimsmarkmið 5

Góður árangur náðist í jafnréttismálum þegar kemur að launum starfsmanna en á árinu hlaut Landsvirkjun gullmerki jafnlaunaúttektar PwC þriðja skiptið í röð. Markmið Landsvirkjunar fyrir 2017 um að hlutfall kvenkyns stjórnenda sé hærra en 30% náðist.

Í upphafi árs 2017 fór af stað, hjá hópi kvenna innan Landsvirkjunar, umræða um stöðu kvenna hjá fyrirtækinu. Þrátt fyrir að ýmislegt hafi verið gert til að jafna stöðu kynjanna var ljóst að þær breytingar gengu hægar en vonir stóðu til. Því var umfjöllun um jafnréttismál tekin upp með fjölbreyttum hætti og í kjölfarið tilkynnti forstjóri Landsvirkjunar að hann myndi taka sæti í jafnréttisnefnd, sem og formennsku, þar til viðunandi árangri yrði náð.

Með stuðningi Landsvirkjunar gáfu samökin Konur í orkumálum út skýrslu í maímánuði um stöðu íslenskra kvenna í orkugeiranum sem sýndi að konur hafa hlutfallslega minni áhrif innan geirans en karlmenn.

Undirbúningur aðgerðaáætlunar

Sú hreyfing sem komin var á umræðuna um jafnréttismál leiddi í ljós þörfina á að gripið yrði til aðgerða. Ákveðið var að leita til utanaðkomandi ráðgjafa til að aðstoða við að greina stöðuna og koma á breytingum. Til verksins voru fengnir ráðgjafar hjá Capacent sem byrjuðu á að greina fyrirtækjamenningu Landsvirkjunar með tilliti til jafnréttis kynjanna. Var það gert meðal annars með heimsóknum á allar starfsstöðvar fyrirtækisins og greiningu á þáttum sem varða menningu, ferla, aðbúnað, húsnæði, o.fl. Auk vettvangsathugunar voru tekin viðtöl við stjórnendur og starfsfólk.

Segment
Segment

Starfsfólki frá öllum starfsstöðum var boðið til Reykjavíkur á haustfund Landsvirkjunar í byrjun nóvember. Allir starfsmenn tóku svo í framhaldinu þátt í starfsdegi um jafnréttismál þar sem hinar mörgu hliðar málefnisins voru ræddar í vinnuhópum. Niðurstöður greiningar Capacent, sem fjallað er um hér að ofan, voru kynntar starfsmönnum og fléttuðust þær inn í umræðuna. Fulltrúi hvers hóps gerði svo grein fyrir því sem rætt var og hugmyndum að verkefnum var safnað saman í lok dags. Í framhaldi af starfsdeginum var unnið frekar að þróun aðgerðaáætlunar.

Innleiðing aðgerðaáætlunar

Í byrjun ársins 2018 verður unnið að innleiðingu aðgerðaáætlunar með hliðsjón af Jafnréttisvísi Capacent. Jafnréttisvísir leggur áherslu á framfarir í jafnréttismálum í eftirfarandi flokkum:  Menning, samskipti og vinnuumhverfi, stefna og skipulag, skipurit, laun og fyrirmyndir. Jafnréttismarkmið verða sett út frá Jafnréttisvísi fyrir öll svið Landsvirkjunar og munu stjórnendur bera ábyrgð á þróun jafnréttismála innan síns sviðs.

Section
Segment

Sjálfbær orka fyrir alla

Heimsmarkmið 7

Í maí 2017 var haldin ráðstefna í New York á vegum SEforALL (Sustainable Energy for All – Sjálfbær orka fyrir alla) en það eru samtök á vegum Sameinuðu þjóðanna sem voru stofnuð í kjölfar loftslagsfundarins í París í desember 2015. Markmið samtakanna eru að tryggja aðgengi mannkyns að orku, tvöfalda hlut endurnýjanlegrar og sjálfbærrar orku í orkuvinnslu í heiminum og tvöfalda framfarir í orkunýtni fyrir árið 2030.

Á ráðstefnunni tók Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri þátt í pallborðsumræðum þar sem hún kynnti endurnýjanlega orkuvinnslu Íslendinga, orkuskipti síðustu áratuga og þær áskoranir sem Íslendingar standa frammi fyrir í orku- og loftslagsmálum.

Í kjölfar ráðstefnunnar var ákveðið að setja á fót hraðal sem ætlað er að styðja við kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og eflingu kvenna í orkugeiranum í heiminum. Landsvirkjun er einn af stofnaðilum hraðalsins sem nefnist á ensku People-Centred Accelerator. Sem hluti af stofnun hraðalsins hýsti Landsvirkjun vinnustofu í Kröflustöð í júní þar sem á fjórða tug fundargesta voru samankomnir víðs vegar að úr heiminum. Meðal gesta var Rachel Kyte, framkvæmdastjóri SEforALL.

Upplýsingar um SEforAll og hraðalinn má nálgast á vefsíðu samtakanna, se4all.org.

Section
Segment

Verndun jarðarinnar – Loftslagsmál

Heimsmarkmið 13

Fyrir loftslagsráðstefnuna í París árið 2015 birti Landsvirkjun loftslagsmarkmið sín opinberlega. Meginmarkmiðið er að fyrirtækið ætlar að verða kolefnishlutlaust eigi síðar en árið 2030. Markvisst er unnið samkvæmt aðgerðaáætlun í því efni. Eftir að dregið hefur verið úr losun, t.d. með því að auka notkun farartækja sem nýta rafmagn og draga úr úrgangi sem ekki fer til endurvinnslu, verður farið í frekari aðgerðir til að binda kolefni með landgræðslu og skógrækt. Landsvirkjun hefur samið við Landgræðslu ríkisins og Skógræktina um bindingarverkefnin auk þess sem keypt er hjá Kolviði binding vegna ferða starfsmanna, tækja, úrgangs, o.fl.

Á árinu 2017 skilaði Landsvirkjun í annað sinn upplýsingum til CDP um aðgerðir fyrirtækisins í loftslagsmálum. Nánari upplýsingar um skilin og endurgjöf CDP má finna í kaflanum Áherslur.

Sjá nánari umfjöllun í kaflanum um loftslagsmál