Landsvirkjun er þátttakandi í UN Global Compact verkefni Sameinuðu þjóðanna sem lýtur að hnattrænum viðmiðum um samfélagslega ábyrgð.
Þar skuldbindur fyrirtækið sig til að virða viðmið Sameinuðu þjóðanna um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu.
Mannréttindi og vinnumarkaður
Fjölbreyttari starfskraftur
Farið var af stað með tilraunaverkefni sumarið 2017 til þess að gefa ungu einhverfu fólki tækifæri til þess að öðlast reynslu á vinnumarkaði.
Í samstarfi við einhverfudeild Menntaskólans í Kópavogi og Specialisterne á Íslandi var átta einstaklingum boðin vinna í umhverfishópi Landsvirkjunar í Reykjavík. Samstarfsaðilar buðu stuðning á meðan á sumarvinnunni stóð, sem og aðstoð þegar ófyrirséð atvik komu upp. Allt starfsfólk umhverfishópa Landsvirkjunar fékk upplýsingar og fræðslu um einhverfu.
Verkefnið gekk vel á heildina litið og reynsla einhverfu einstaklinganna og annarra starfsmanna var dýrmæt. Upplifun einstaklinganna af starfinu var mismunandi, sem og framhald þeirra á atvinnumarkaði, en einn þeirra var ráðinn í fullt starf á öðrum vettvangi eftir reynslu sína hjá Landsvirkjun.

Aukin vernd vinnuafls – keðjuábyrgð
Landsvirkjun hefur tekið upp reglur um keðjuábyrgð, sem stjórn Landsvirkjunar samþykkti í ágúst 2016, og er þeim ætlað að tryggja að allir sem vinna fyrir Landsvirkjun á óbeinan hátt, hjá verktökum, undirverktökum eða starfsmannaleigum, njóti réttinda og kjara í samræmi við lög og kjarasamninga.
Ákvæði um keðjuábyrgð hefur verið sett í samninga Landsvirkjunar um innkaup, það er verksamninga, vörusamninga og samninga um kaup á þjónustu. Samkvæmt ákvæðinu skal verktaki tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við samninginn, gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.
Að auki ber verktaki ábyrgð á og skal hafa í gildi og viðhalda tryggingum fyrir tjóni vegna slysa, veikinda, sjúkdóma, sjúkrakostnaðar eða dauða sem starfsmenn verktaka verða fyrir og rekja má til framkvæmda. Verktaki ber ábyrgð á að undirverktakar og starfsmannaleigur og starfsmenn þeirra hafi sams konar tryggingar.
Viðurlög liggja við brotum á reglum um keðjuábyrgð eða ef mótaðili veitir ekki umbeðnar upplýsingar. Þannig hefur Landsvirkjun úrræði til að framfylgja því að reglunum sé fylgt.
Mannréttindastefna
Undirbúningsvinna að gerð stefnu Landsvirkjunar varðandi mannréttindi stóð yfir á árinu 2017 en er ekki lokið. Mannréttindastefna hefur því ekki verið gefin út en stefnt er að útgáfu hennar á árinu 2018.
Umhverfismál
Vel gekk að framfylgja framkvæmdaáætlun og markmiðum í umhverfismálum árið 2017. Fyrirtækið setti sér m.a. markmið um að 40% vatnsorkuvinnslu hefðu verið tekin út skv. alþjóðlegum sjálfbærnimatslykli (Hydropower Sustainability Assessment Protocol, HSAP) af óháðum ytri aðila og stæðist kröfur um góð vinnubrögð í lok árs 2017, því markmiði hefur verið náð.
Nánari umfjöllun um sjálfbærniúttekt á Fljótsdalsstöð
Nánari umfjöllun um Blue Planet verðlaun Blöndustöðvar
Einnig hafa náðst markmið um samdrátt í eldsneytisnotkun, minnkun úrgangsmyndunar og aukna úrgangsflokkun. Landsvirkjun verður kolefnishlutlaus árið 2030 og hefur á árinu náð markmiðum sínum um aukna hlutdeild rafbíla í bílaflota fyrirtækisins, fjárfestingar í endurnýjanlegri orku og rannsóknir á fjölnýtingu jarðvarma, auk þess sem vel hefur tekist að fylgja aðgerðaráætlun um bindingu kolefna.
Markmið um starfsemi án umhverfisatvika náðist ekki árið 2017 en umhverfisatvikum fækkar þó um helming á milli ára. Um helming umhverfisatvika Landsvirkjunar árið 2017 má rekja til virkjunarframkvæmda á vegum fyrirtækisins.
Nánari upplýsingar um frammistöðu Landsvirkjunar í umhverfismálum má finna í umhverfiskafla ársskýrslu og grænu bókhaldi.
Varnir gegn spillingu
Siðareglur starfsmanna Landsvirkjunar voru gefnar út og innleiddar í desember 2013. Þær taka á níu efnisflokkum, meðal annars öryggismálum starfsmanna, mikilvægi heiðarleika og virðingu í samskiptum, meðhöndlun trúnaðarupplýsinga og hagsmunaárekstra.
Í framhaldi voru svo siðareglur innleiddar fyrir birgja og þjónustuaðila en þær byggja á siðareglum starfsmanna og viðmiðum UN Global Compact um mannréttindi, vinnurétt, umhverfismál og varnir gegn spillingu. Reglurnar leggja fram skýrar leiðbeiningar um væntingar m.t.t. heilbrigðra starfs- og stjórnarhátta og voru innleiddar í viðeigandi verkferla árið 2015 en engin frávik frá þeim ferlum komu upp á árinu.