Section
Segment

Ný tækifæri

Á heimsvísu er vaxandi áhersla á nauðsyn þess að takast á við loftslagsbreytingar með metnaðarfullum aðgerðum. Stjórnvöld og alþjóðastofnanir hafa sett sér skýr markmið um að draga úr losun.  Neytendur eru sífellt meðvitaðri um þessi mál og gera auknar kröfur á þau fyrirtæki sem þeir eiga viðskipti við um að þau sýni ábyrgð, geri starfsemi sýna sjálfbæra og auki hlut endurnýjanlegra orkugjafa í sinni starfsemi.  Landsvirkjun og Ísland eru í öfundsverðri stöðu í þessu samhengi og liggja tækifæri okkar næstu ár til aukinnar sölu og verðmætasköpunar í því að mæta eftirspurn eftir orku unninni úr endurnýjanlegum orkugjöfum.

Section
Segment

Samstillt átak þjóða heims um loftslagsaðgerðir

Í lok árs 2017 höfðu 172 lönd staðfest Parísarsáttmálann en með því undirgengust þau að vinna í sameiningu að því að halda hnattrænni hlýnun vel innan 2°C. Markmiðið er bæði metnaðarfullt og sögulegt en svo víðtæk alþjóðleg samstaða í loftslagsmálum á sér engin fordæmi.

Segment

Þrýstingur frá almenningi

Notkun jarðefnaeldsneytis er helsti orsakavaldur loftslagsbreytinga, en dagleg notkun jarðarbúa á jarðefnaeldsneyti leysir úr læðingi umtalsvert magn koltvísýrings. Um 40% þessa koltvísýrings eiga uppruna sinn í bruna jarðefnaeldsneytis í raforkuvinnslu og um 25% í bruna jarðefnaeldsneytis í samgöngum. Loftslagsaðgerðir á heimsvísu snúa að miklu leyti að því að draga úr losun í þessum tveimur geirum og þá ekki síst með því að auka hlut endurnýjanlegrar orku í raforkuvinnslu en á sama tíma að auka notkun þeirrar raforku í samgöngum.

Sú áhugaverða þróun hefur orðið á undanförnum árum að þrýstingur á loftslagsaðgerðir kemur í dag ekki einungis að ofan heldur gera almenningur og viðskiptavinir sífellt ríkari kröfur til fyrirtækja um ábyrgð í loftslagsmálum. Við þessu eru fyrirtæki í auknum mæli sjálfviljug að bregðast og hafa mörg þegar sett sér umhverfismarkmið sem ná langt út fyrir það sem þeim er lagalega skylt. Þessi sömu fyrirtæki gera á sama tíma sífellt ríkar kröfur til eigin birgja um aukna ábyrgð.

IKEA, Apple, BMW

Mörg af verðmætustu fyrirtækjum heims hafa þegar í dag sett sér það markmiði að nota einungis endurnýjanlega orku til eigin starfsemi innan ákveðins árafjölda. Sem dæmi um slík fyrirtæki má nefna IKEA, Apple, BMW, eBay, Facebook, Google, H&M, Hewlett Packard, Johnson & Johnson, Kellogg‘s, Lego, Microsoft, Nestlé, Nike, Starbucks, Tesco, Tetra Pak og Walmart. Þessi sömu fyrirtæki gera einnig í auknum mæli þá kröfu að umsamin raforka komi frá nýjum raforkuverum og að viðskipti þeirra stuðli þannig raunverulega að auknum hlut endurnýjanlegrar orku á heimsvísu.

Jákvætt framlag Íslands í loftslagsmálum er þegar í dag talsvert og þá ekki síst með vinnslu endurnýjanlegrar orku til framleiðslu á hluta þess áls, kísils og tölvugagna sem þróun heimsins almennt kallar eftir. Frekari þátttaka í öflun endurnýjanlegrar orku til slíkrar eða annarrar heimsframleiðslu er Íslendingum valkvæð en tækifærin eru til staðar, bæði hvað varðar eftirspurn og mögulegt aukið framboð endurnýjanlegrar orku.

Section
Segment

Alþjóðleg þátttaka Íslands í öflun endurnýjanlegrar orku

Landsvirkjun hefur ekki farið varhluta af auknum áhuga alþjóðlegra fyrirtækja á loftslagsaðgerðum og því að auka vægi endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. M.a. hefur gagnaversiðnaður á Íslandi vaxið hratt á umliðnum árum og ný gagnaver hafa bæst í hópinn. Notkun gagnavera á íslenskri raforku nemur í dag nokkrum tugum megavatta en til samanburðar þekktist þessi starfsemi varla á Íslandi fyrir örfáum árum. Margir viðskiptavinir gagnavera á Íslandi leggja mikla áherslu á að sú orka sem þeir noti komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Sú staðreynd að íslensk raforka á uppruna í endurnýjanlegri auðlind hefur þarna lagt lóð á vogarskálar.

Gangverk fjórðu iðnbyltingarinnar

Gagnaver eru gangverk fjórðu iðnbyltingarinnar og grunnþáttur í því að svala sífellt aukinni spurn mannkyns eftir upplýsingum. Uppbygging gagnavera í heiminum er hröð og árleg fjárfesting í dag nemur e.t.v. 150–200 milljörðum dollara. Þessi vöxtur kallar óhjákvæmilega á ný raforkumannvirki en gagnaver kynnu að nota um 3% allrar raforku í heiminum innan áratugar. Sem dæmi um þessi umsvif má nefna að uppgangur gagnavera á Norðurlöndum hefur verið mikill undanfarin ár og hafa m.a. Amazon, Apple, Facebook og Google tilkynnt um hundraða milljarða fjárfestingar á svæðinu.

Tækifæri Íslands á að eigna sér enn frekari hlut í þessari spennandi uppbyggingu eru mikil og í því tilliti hefur Landsvirkjun undanfarin ár fjárfest í markaðssókn gagnavart gagnaversiðnaði, sótt ráðstefnur og fundi og aflað verðmætra tengsla og þekkingar. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og Landsvirkjun þjónustar í dag tvö gagnaversfyrirtæki sem hafa vaxið hratt á undanförnum árum.

Umframeftirspurn

Auk gagnavera hafa fleiri og fjölbreyttar atvinnugreinar sýnt því áhuga að fjárfesta á Íslandi og má segja að í dag ríki það ástand að spurn eftir þjónustu Landsvirkjunar sé umfram getu fyrirtækisins til framleiðslu. Þannig hafa t.d. margir núverandi og hollir viðskiptavinir Landsvirkjunar sýnt því ríkan áhuga á undanförnum árum að þróa enn frekar viðskiptasamband fyrirtækjanna.

Section
Segment

Minni losun samhliða frekari rafvæðingu innanlands

Ísland hefur undirgengist sameiginleg markmið Evrópusambandsþjóða um að draga ríkulega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Lykilþáttur í því að Ísland nái eigin markmiðum snýr að því að draga úr losun í samgöngum á landi. Til að setja umfang þeirrar losunar í samhengi þá myndi ímynduð rafvæðing alls bílaflota landsmanna næsta rúma áratuginn að líkindum nægja til að Ísland stæðist eigin skuldbindingar og til þessa þyrfti að afla orku sem gæti numið um 1,5 TWst eða um 8% af núverandi vinnslugetu íslenska raforkukerfisins. Hversu hratt er raunhæft að rafvæða bílaflota landsmanna og að hve miklu leyti verður þó ekki lagt mat á hér en Landsvirkjun mun óhjákvæmilega taka virkan þátt í rafvæðingu samgangna sem stærsti vinnsluaðili orku á Íslandi.

Landsvirkjun hefur beitt sér á fjölbreyttan hátt fyrir orkuskiptum í samgöngum á Íslandi. Fyrirtækið hefur m.a. komið að fjármögnun og starfsemi Íslenskrar NýOrku, sem stundar rannsóknir og þekkingaröflun á orkuskiptum í samgöngum, og er Íslensk NýOrka um leið ráðgefandi stjórnvöldum í málaflokknum. Landsvirkjun vinnur að auki sjálf að settum metnaðarfullum markmiðum hvað varðar rafvæðingu eigin bílaflota.

Sem dæmi um frekara framlag Landsvirkjunar til þess að ná landsmarkmiðum Íslands má nefna samkomulag sem fyrirtækið gerði á árinu 2017 við Félag íslenskra fiskimjölsframleiðenda. Því samkomulagi er ætlað er að stuðla að enn frekari notkun raforku í stað olíu til fiskimjölsframleiðslu og hvetja til enn frekari fjárfestingar í rafvæðingu slíkrar starfsemi. 

Segment

Aukin nýting og hagkvæmni þegar snortinna svæða

Undanfarin ár hefur Landsvirkjun fjárfest í eigin raforkuvinnslukerfi með það fyrir augum að bæta nýtingu þess og hámarka afrakstur þeirra auðlinda sem fyrirtækinu er trúað fyrir. Stækkun Búrfellsvirkjunar, sem tekin verður í rekstur árið 2018, er skýrt dæmi um þetta en sú virkjun mun fara langt með að fullnýta það rennsli Þjórsár sem áður rann ónýtt fram hjá eldri virkjun á svæðinu.

Við rekstur jarðvarmavirkjana eru aukinheldur ríkuleg tækifæri til verðmætasköpunar umfram það sem felst í hefðbundinni vinnslu og sölu á raforku. Þannig skilar rekstur jarðvarmavirkjana af sér miklu magni af t.d. varmaorku, vatni og fjölbreyttum efnisstraumum. Landsvirkjun vinnur ötullega að því að þróa áfram hagnýtingu slíkra hliðarafurða raforkuvinnslu þriggja jarðvarmavirkjana fyrirtækisins á Norðausturlandi og horfir í því tilliti m.a. til fordæma annars staðar frá.

Jarðböðin við Mývatn eru gott dæmi um verkefni sem byggir á hliðarafurðum jarðvarmavinnslu Landsvirkjunar á svæðinu en þar baða gestir sig í affallsvatni Bjarnarflagsvirkjunar við Reykjahlíð. Fyrirtækið, sem m.a. er í eigu heimamanna, tekur í dag á móti yfir 200 þúsundum gesta árlega og er með sterkan rekstur.