Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar hafa staðið yfir frá því í apríl 2016. Uppbygging stöðvarinnar miðar að því að nýta 14% af rennslisorku við Búrfellsstöð sem renna að jafnaði ónýtt fram hjá stöðinni á hverju ári.
Hámarksnýting auðlindar og aukinn sveigjanleiki í rekstri
Uppsett afl nýrrar stöðvar verður 100 MW með einni vél en gert er ráð fyrir að síðar verði hægt að stækka stöðina um allt að 40 MW. Stækkun Búrfellsvirkjunar býður upp á aukinn sveigjanleika í rekstri og gefur möguleika á viðhaldi mannvirkja núverandi stöðvar án þess að orkuvinnsla skerðist að marki. Er það í samræmi við hlutverk fyrirtækisins að hámarka afrakstur af þeim orkulindum sem fyrirtækinu er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi.
Hönnuðir og ráðgjafar vegna stækkunar Búrfellsvirkjunar eru Verkís, arkitektahönnun mannvirkja er í höndum VA arkitekta og landslagsarkitektahönnun er hjá Landark.
Framkvæmdir á árinu
Framkvæmdir náðu hámarki á árinu
Undir lok ársins náði fjöldi starfsmanna á framkvæmdasvæðinu hámarki en þá störfuðu þar hátt í 200 manns frá 16 þjóðernum. Frá upphafi framkvæmda hafa Íslendingar verið tæpur helmingur af heildarfjölda starfsmanna á verkstað. Helstu verktakar sem koma að verkinu eru ÍAV-Marti, sem sér um byggingarverk, DSD Noell sem annast vinnu við stálfóðringar og lokur og Andritz Hydro sem framleiðir vélbúnað.
Aðstaða verktaka er nokkuð umfangsmikil, auk starfsmannabúða eru á staðnum skrifstofur, steypustöð, verkstæði og önnur aðstaða sem nauðsynleg er við stórt verk. Landsvirkjun reisti einnig eigin vinnubúðir fyrir starfsmenn og framkvæmdaeftirlit sem er á vegum Mannvits.
Frá upphafi framkvæmda hafa öryggismál á verkstað verið höfð í fyrirrúmi til að fylgja eftir núllslysastefnu sem Landsvirkjun leggur mikla áherslu á í sínum verkefnum.

Framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar hafa gengið vel og náðu hámarki á árinu. Virkjunin verður lítið sýnileg frá yfirborðinu og sýnir myndin stöðvarhúshvelfingu virkjunarinnar. Unnið er að flutningi á vél- og rafbúnaði í stöðvarhúsið og uppsetningu hans. Myndin sýnir hluta rafals vera bakkað af mikilli nákvæmni inn í stöðvarhúshvelfinguna.
Staða framkvæmda
Í upphafi árs 2017 náðist merkur áfangi þegar neðanjarðargreftri lauk og uppsteypun stöðvarhúss hófst. Unnið var áfram að greftri og styrkingu aðrennslis- og frárennslisskurðar. Á vordögum hófst uppsetning stálfóðringa í vatnsvegum, auk vélasamstæðu og rafbúnaðar.
Stærstu verkefni á árinu 2018 eru áframhaldandi vinna við uppsetningu vél- og rafbúnaðar, auk lokavinnu vatnsvegar. Framkvæmdum hefur frá upphafi miðað vel og er stefnt að því að gangsetja virkjunina sumarið 2018, þá rétt rúmum tveimur árum frá því framkvæmdir hófust. Þá mun taka við frágangsvinna og landmótun á svæðinu.