Bætt orkunýting og aukning í uppbyggingu endurnýjanlegrar orkuvinnslu eru hryggjarstykkið í áætlunum yfir 170 ríkja til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun undir 2°C.
Endurnýjanleg orka er unnin frá orkulind sem endurnýjar sig stöðugt þótt af henni sé tekið og helst þannig í jafnvægi af náttúrunnar hendi.
Vatnsorka, jarðvarmi, vindorka, sólarorka, lífmassi og sjávarorka teljast til endurnýjanlegra orkugjafa. Orkulindir jarðefna, t.d. olía, kol og gas, teljast ekki endurnýjanlegar þar sem þær eru aðeins til í takmörkuðu magni.
Landsvirkjun vinnur orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum
Vatn
Varmi
Vindur
Sjálfbærni og endurnýjanleiki eru tveir ólíkir hlutir. Sjálfbær orkuvinnsla lýsir því hvernig orkulind er nýtt en endurnýjanleiki lýsir eðli hennar. Endurnýjanlega auðlind er þannig hægt að nýta á sjálfbæran eða ósjálfbæran hátt.
Sjálfbær nýting orkulindanna
Landsvirkjun vinnur orku úr endurnýjanlegum orkugjöfum og leggur áherslu á að nýta auðlindir á sjálfbæran hátt. Með sjálfbærri þróun er vísað til þróunar þar sem litið er til lengri tíma og snýst hún um að auka efnahagsleg verðmæti og styrkja samfélagið, jafnframt því að viðhalda gæðum náttúrunnar.
Landsvirkjun hefur notað alþjóðlegan matslykil um sjálfbærni vatnsorkuvinnslu - Hydropower Sustainability Assessment Protocol (HSAP) - til að efla enn frekar sjálfbæra auðlindanýtingu fyrirtækisins.
Alþjóðlegt teymi úttektaraðila tók rekstur Fljótsdalsstöðvar út á grundvelli matslykilsins árið 2017. Í úttektinni voru teknir til nákvæmrar skoðunar 17 flokkar sem varða rekstur Fljótsdalsstöðvar og eiga að gefa mynd af því hversu vel starfsemin fellur að alþjóðlegum viðmiðum um sjálfbæra þróun. Úttektin leiddi í ljós að rekstur Fljótsdalsstöðvar er framúrskarandi hvað varðar sjálfbæra nýtingu vatnsafls og á mörgum sviðum þykja starfsvenjur í Fljótsdalsstöð þær bestu sem fyrirfinnast.
Rekstur Fljótsdalsstöðvar þótti til fyrirmyndar og fékk 5 í einkunn af 5 mögulegum í 11 flokkum af þeim 17 sem til skoðunar voru.
Úttekt á Fljótsdalsstöð á grundvelli hins alþjóðlega matslykils um sjálfbæra nýtingu vatnsafls

Í ljósi góðrar reynsla af HSAP var ákveðið að þróa samsvarandi matslykil um sjálfbærni orkuvinnslu með jarðvarma – GSAP.
Samráðshópur undir forystu Orkustofnunar, með þátttöku Landsvirkjunar, Orkuveitu Reykjavíkur, HS-Orku og Umhverfisstofnunar hefur unnið að þróun lykilsins. Í ársbyrjun 2017 var gerð úttekt á undirbúningi Þeistareykjavirkjunar á grundvelli draga að lykli.
Undirbúningur Þeistareykjavirkjunar þótti til fyrirmyndar og fékk 5 í einkunn af 5 mögulegum í 10 flokkum af þeim 18 sem til skoðunar voru.
