Segment

Í grænu bókhaldi Landsvirkjunar er gerð grein fyrir tölulegum upplýsingum um umhverfisáhrif vegna starfsemi fyrirtækisins.

Landsvirkjun er með vottað umhverfisstjórnunarkerfi samkvæmt ISO 14001:2015 og vinnur markvisst að því að draga úr umhverfisáhrifum starfseminnar. Mikilvægum umhverfisþáttum sem snúa að rekstri Landsvirkjunar er stýrt og þeir vaktaðir, þ.m.t. nýting auðlinda, losun í andrúmsloft og vatnsviðtaka, ásamt náttúru og ásýnd.

Section
Segment

Rekstur vatnsaflsstöðva kolefnisjafnaður að fullu

Heildarlosun gróðurhúsalofttegunda (GHL) frá starfsemi Landsvirkjunar árið 2017 var 53 þúsund tonn CO2-ígildi sem að stærstum hluta má rekja til orkuvinnslu með jarðvarma (70%) og til losunar frá lónum (28%). Áætluð kolefnisbinding Landsvirkjunar með landgræðslu og skógrækt árið 2017 var 30 þúsund tonn CO2-ígildi.

Kolefnisspor Landsvirkjunar = heildarlosun gróðurhúsalofttegunda – kolefnisbinding

Kolefnisspor Landsvirkjunar árið 2017 er 23 þúsund tonn CO2-ígildi og eykst um 22% á milli ára. Aukin losun GHL skýrist af gangsetningu nýrrar 45MW aflstöðvar, Þeistareykjastöðvar og að í Kröflustöð var tekin í notkun ný gasrík vinnsluhola. Sé litið til kolefnisspors á hverja orkueiningu er kolefnissporið af orkuvinnslu Landsvirkjunar árið 2017 að meðaltali 1,6 tonn CO2-ígildi. Sé þessari losun skipt upp á milli vinnslu með vatnsafli og jarðvarma kemur í ljós að Landsvirkjun hefur þegar kolefnisjafnað alla orkuvinnslu sína með vatnsafli og um 40% af jarðvarma.

Segment
Section
Segment

Heildarnotkun Landsvirkjunar á jarðefnaeldsneyti hefur dregist saman 18% á undanförnum fimm árum

Hreinorkubílum fjölgar

Hreinorkubílum fjölgar á milli ára og er nú 19% bílaflota Landsvirkjunar knúinn með rafmagni. Hreinir rafbílar eru 15 og 4 eru rafmagnstengiltvinnbílar. Hreinorkubílum í bílaflota Landsvirkjunar hefur því fjölgað um 50% milli ára.

Í starfsemi Landsvirkjunar er jarðefnaeldsneyti notað á bifreiðar, ýmis tæki og til að knýja varaaflsvélar, auk þess sem haldið er utan um eldsneytisnotkun bílaleigubíla og vegna flugferða starfsmanna.

Á árinu 2017 var heildarnotkun jarðefnaeldsneytis 236 þúsund lítrar og að stærstum hluta dísilolía. Dregið hefur úr notkun jarðefnaeldsneytis á síðustu fimm árum um 18% og er samdráttur mestur í notkun jarðefnaeldsneytis á farartæki. Á árinu 2017 var áframhaldandi samdráttur á eldsneytisnotkun á öllum rekstrarsvæðum Landsvirkjunar nema á Þjórsársvæði, en þar var talsverð aukning samanborið við 2016 vegna samdráttar í notkun á lífsdísils sem orsakaðist af örðuleikum hjá birgi. Þá var aukning í eldsneytisnotkun vegna rannsókna- og framkvæmdaverkefna.

Segment
Section
Segment

Losun brennisteinsvetnis í andrúmsloft undir viðmiðunarmörkum

Losun brennisteinsvetnis hefur hingað til verið óhjákvæmilegur þáttur í nýtingu jarðhita á Íslandi en brennisteinsvetni (H2S) getur haft neikvæð áhrif á bæði fólk og lífríki. Náttúrulegt útstreymi frá jarðhitasvæðum hefur einnig áhrif á styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti. 

Landsvirkjun fylgist með styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti vegna jarðhitanýtingar á Norðausturlandi. Rauntímaniðurstöður þessara mælinga og árlegar skýrslur eru aðgengilegar á vef Landsvirkjunar. Mælistöð við Reykjahlíðarskólann er sú mælistöð sem liggur næst orkuvinnslusvæði Kröflu og Bjarnarflags.

Niðurstöður mælinga ársins 2017 leiða í ljós að ársmeðaltal fyrir styrk brennisteinsvetnis var innan heilsuverndarmarka, 5 µg/m³ (±3 µg/m³), á öllum mælistöðum. Við Reykjahlíðarskóla fór daglegt hámark 24 klukkustunda hlaupandi meðaltals af styrk brennisteinsvetnis aldrei yfir skilgreind heilsuverndarmörk, 50 µg/m³. Niðurstöður mælinga við Reykjahlíðarskóla má sjá hér fyrir neðan en þar reiknaðist ársmeðaltal 2017 fyrir styrk brennisteinsvetnis í andrúmslofti 3,6 µg/m³ og lækkar á milli ára.

Segment
Section
Segment

Djúplosun á skiljuvatni stuðlar að betri nýtingu jarðhitakerfisins

Á árinu 2017 féllu til við orkuvinnslu 8.631 þúsund tonn af skiljuvatni frá jarðvarmastöðvum Landsvirkjunar og var 69% þess veitt aftur niður í jarðhitageyminn. Stærsti hluti skiljuvatnsins kemur frá Kröflustöð eða um 65% en 19% kemur frá Þeistareykjastöð og 16% frá Bjarnarflagsstöð.

Þá féllu til 5.607 þúsund tonn af skiljuvatni frá Kröflustöð, þar af var 4.590 þúsund tonnum veitt aftur niður í jarðhitageyminn. Með því er stuðlað að betri nýtingu jarðhitakerfisins um leið og dregið úr umhverfisáhrifum jarðvarmavinnslunnar á yfirborði.

Segment
Segment

Mývatn ekki orðið fyrir áhrifum af frárennslisvatni virkjana 

Frá árinu 1997 hefur farið fram árleg vöktun á uppleystum efnum í grunnvatni í lindum við Mývatn í þeim tilgangi að meta áhrif vegna losunar frárennslisvatns frá Kröflu- og Bjarnarflagsstöð.

Aðferðin sem notuð er við vöktunina byggir á því að fylgst er með náttúrulegum ferilefnum á borð við arsen (As) sem eru í margfalt hærri styrk í frárennslisvatni aflstöðvanna en í grunnvatni. Í mælingum í lindum við Mývatn hefur styrkur arsens alltaf mælst undir umhverfismörkum I, sem þýðir að hætta á áhrifum er mjög lítil eða engin og má því draga þá ályktun að vatnið hafi ekki orðið fyrir áhrifum af frárennslisvatni virkjananna.

Segment
Section
Segment

Sjö umhverfisatvik á árinu

Markmið Landsvirkjunar er starfsemi án umhverfisatvika. Umhverfisatvik er skilgreint sem atvik sem fyrirtækinu ber samkvæmt starfsleyfi að tilkynna til umhverfisyfirvalda eða ef eitthvað í starfseminni fer gegn lögum, reglum eða viðmiðum fyrirtækisins.

Á liðnum árum hefur fjöldi atvika verið frá engu og upp í þrettán. Á árinu 2017 urðu sjö umhverfisatvik, fjögur þeirra áttu sér stað í daglegri starfsemi fyrirtækisins og þrjú við framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar.

Atvikin á árinu tengdust leka á olíu og glussa, gróðurskemmdum af völdum fráveituvatns, plaströrum sem töpuðust út í áfarveg og brestum í vatnsstýringu. 

Þegar um olíu- og glussaleka var að ræða auk gróðurskemmda voru atvikin tilkynnt til heilbrigðisyfirvalda og gripið var til viðeigandi aðgerða. Í öllum tilfellum var unnið að því að draga úr umhverfiáhrifum af þeirra völdum, farið yfir verkferla og þeir endurskoðaðir í samráði við hlutaðeigandi aðila.

Section
Segment

Grænt bókhald

Hér má sækja grænt bókhald Landsvirkjunar 2017.

Grænt bókhald 2017
9,99 MB PDF File

Hér má sjá útgefnar eldri umhverfisskýrslur