Orkuvinnslu fylgir óhjákvæmilega rask sem getur meðal annars valdið umtalsverðum sjónrænum áhrifum.
Ítarleg vöktun
Landsvirkjun leggur ríka áherslu á að lágmarka þau áhrif sem starfsemin hefur í för með sér, að viðhalda náttúrulegum fjölbreytileika og að færa röskuð svæði eins og unnt er til fyrra horfs. Þá leggur fyrirtækið sérstaka áherslu á að skapa heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrlegs landslags.
Lögð er áhersla á að meta áhrif á ásýnd og aðra umhverfisþætti, strax á undirbúningsstigi nýrra virkjana og við stækkun og viðhald á núverandi aflstöðvum, meðal annars með víðtækum rannsóknum. Mikill fjöldi skýrslna er gefinn út árlega þar sem niðurstöður rannsókna og vöktunar mögulegra áhrifa á náttúru og lífríki eru kynntar.
Hvammsvirkjun – nýtt og endurbætt útlit
Landsvirkjun hefur um árabil unnið að rannsóknum og undirbúningi fyrirhugaðrar Hvammsvirkjunar, sem er í nýtingarflokki rammaáætlunar, samkvæmt þingsályktun Alþingis frá 1. júlí 2015. Leitast er við að draga úr ásýndaráhrifum og laga útlit mannvirkja að náttúru sem fyrir er á landsvæðinu.
Áhersla er á heildarmynd svæðisins og að tryggja sem best gæði byggingarlistar við hönnun, ásamt því að samþætta vistvænar áherslur og bjóða ferðamönnum upp á fróðleik og útivistarmöguleika.
Hönnunarhugmyndin byggist á klettavegg og að mannvirki vaxi út úr landslaginu með tilsvarandi efnismeðferð í formi og ytra byrði bygginga og efnisval miða að aðlögun að landslagi.
Mannvirkjaskráning á starfssvæðum
Á árinu 2017 var unnin skráning og mat á húsbyggingum og mannvirkjum Landsvirkjunar á starfssvæðum í Bjarnarflagi, Kröflustöð og í Laxárstöðvum, í samræmi við ákvæði skipulagslaga um húsakönnun. Tilgangur með húsakönnun er að tryggja að ákvarðanir um breytingar á einstökum húsum eða húsþyrpingu séu teknar með þekkingu á því gildi sem þau hafa fyrir umhverfi sitt og komandi kynslóðir.

Fljótsdalsstöð (Kárahnjúkavirkjun) – framkvæmd skilyrða í virkjunarleyfi
Á árinu voru teknar saman upplýsingar og gefin út skýrsla um framkvæmd skilyrða sem sett voru fyrir virkjunarleyfi við Kárahnjúka. Niðurstöður sýna að Landsvirkjun hefur uppfyllt skilyrði fyrir virkjunarleyfi Kárahnjúkavirkjunar að fullu eða eftir því sem mögulegt hefur verið.
Skilyrði fyrir virkjunarleyfi Kárahnjúkavirkjunar voru þrenns konar:
- Skilyrði sem umhverfisráðherra setti í tengslum við úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum.
- Fyrirheit Landsvirkjunar í matsskýrslu og kæru vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar.
- Skilyrði iðnaðarráðherra í virkjunarleyfi.
Í úrskurði umhverfisráðherra var lagst gegn veitum úr ám á Fljótsdalsheiði og veita af Hraunum sunnan Fljótsdals stytt verulega, auk nokkurra breytinga á tilhögun einstakra framkvæmdaliða. Sú helsta var færsla á yfirfalli frá Desjarárdal að aðalstíflu við Kárahnjúka.
Óskað var eftir því að rekstri yrði hagað þannig að sem oftast yrði hægt að hleypa vatni á fossa Jökulsár í Fljótsdal sem margir eru formfagrir og mikilfenglegir.
Eftir að virkjun var kominn í fullan rekstur 2009 hefur vatn verið á fossunum öll síðsumur nema sumarið 2015 en það ár var óvenjulélegt vatnsár.
Hreindýrarannsóknir
Aðkoma Landsvirkjunar að hreindýrarannsóknum er hluti af skilyrðum í virkjunarleyfi og framkvæmd í samráði við umsjónaraðila hreindýrarannsókna; Náttúrustofu Austurlands. Meginmarkmið þessara rannsókna er að fylgast með áhrifum framkvæmda á útbreiðslu dýranna, annars vegar með kortlagningu á dreifingu þeirra og hegðun á burðartíma og hins vegar með því fylgjast með þeim árið um kring með aðstoð GPS-merktra hreinkúa.
Á meðan á framkvæmdum stóð fjölgaði dýrunum og þau fluttu sig fyrst til innan Snæfellsöræfa og að lokum annars vegar til norðurs á heiðar inn af Vopnafirði og Þistilfirði (út af svæðinu) og hins vegar austur á bóginn. Vart var við vísi að þessari þróun áður en framkvæmdir hófust og enn er því margt óljóst um mögulegar orsakir. Slíkar sviptingar í útbreiðslu hafa áður sést. Á næstunni verður lögð áhersla á að tengja hreindýra- og gróðurvöktun með hliðsjón af beitarálagi.
Uppgræðsla
Til mótvægis við gróðurlendi sem fór undir lón virkjunarinnar, Hálslón, eða röskuðust af öðrum orsökum, hafa um 70 km2 lands verið teknir til uppgræðslu, aðallega á heiðum inn af Jökuldal og á aurum Jökulsár á Dal á Úthéraði. Auk þess að bæta landgæði á svæðinu bindur uppgræðslan kolefni úr andrúmsloftinu og dregur þannig úr gróðurhúsaáhrifum. Eftir því sem landgæðin batna er áætlað að kolefnisbindingin á svæðinu verði mun meiri en losun gróðurhúsalofttegunda frá Hálslóni.
Þeistareykjastöð – frágangur vegfláa og nýting á svarðlagi
Á Þeistareykjum var á völdum stöðum reynt að nota gróður og jarðveg sem þurfti að fjarlægja af framkvæmdasvæðinu til að græða upp vegfláa og önnur röskuð svæði.
Aðgerðirnar þóttu takast vel en með þessu móti má nýta staðargróður sem fellur öllu jöfnu betur að landi en hefðbundin uppgræðsla á vegfláum með áburðardreifingu. Að auki er haldið í líffræðilega fjölbreytni staðarins.
Hins vegar er óljóst hver framvinda gróðursamfélaga verður á svæðum sem grædd eru upp með þessum hætti. Mögulega dregur raskaður jarðvegur í vegfláum úr möguleikum ákveðinna plöntutegunda og því gæti samsetning gróðursamfélagsins breyst með tíð og tíma.
Náttúrustofa Norðausturlands og Náttúrustofa Austurlands rannsökuðu sumarið 2017 mismunandi uppgræðsluaðgerðir við Þeistareykjaveg. Lagt var mat á gróðurþekju og tegundir voru skráðar. Þessi rannsókn verður endurtekin að nokkrum árum liðnum og þá er hægt að leggja mat á ástand uppgræddra svæða.